Verð á Bitcoin hélt áfram að falla í morgun, með yfir 5% lækkun, en það féll einnig töluvert í síðustu viku . Verðið hefur nú ekki verið lægra í rúmt ár. Reuters segir frá .

Verð rafmyntarinnar náði lægst 5.173 Bandaríkjadölum í morgun, og hefur ekki verið lægra í 13 mánuði, en síðasta haust tók verðið gríðarlegt stökk og fór úr um það bil 2.000 dölum um mitt sumar í rétt tæpa 20.000 rétt fyrir jól.

Fréttastofa CNBC sagði frá því á föstudag að Tom Lee, einn þekktasti stuðningsmaður rafmynta á Wall Street, hefði tæplega helmingað spá sína fyrir virði bitcoin um næstkomandi áramót. Hann spáir því nú að rafmyntin verði um 15.000 dala virði, en hafði áður spáð 25.000 dölum á einingu.

Lee sagði helsta áhrifavaldinn vera lækkun svokallaðs „núllpunkts“; þess markaðsverðs sem samsvarar meðalkostnaðinum við að grafa eftir einni einingu. Það gildi sé nú um það bil 7.000 dalir, en hafði áður verið metið í um 8.000 dölum. Hann segir „sanngjarnt verð“ rafmyntarinnar vera um 2,2-falt það gildi, eða rúmir 15.000 dalir eins og áður sagði.