Gengi bitcoin heldur áfram að hríðfalla og stendur myntin nú í rúmum 33 þúsund Bandaríkjadollurum þegar að fréttin er skrifuð. Hefur myntin því fallið um 25,5% undanfarinn sólarhring. CNN greinir frá.

Rafmyntin náði hápunkti sínum um miðjan apríl á þessu ári þegar að hún stóð í um 64,8 þúsund dollurum og hefur hún fallið um 49,1% síðan þá. Gengi myntarinnar hefur ekki verið lægra síðan í janúar á þessu ári. Þá hefur verðmæti myntarinnar frá því að tilkynnt var að Tesla myndi kaupa og taka við bitcoin strokast út.

Gengi bitcoin féll töluvert síðastliðinn fimmtudag þegar að Elon Musk greindi frá því að Tesla myndi ekki lengur taka við bitcoin . Þá féll gengi myntarinnar aftur eftir að Musk virtist gefa það í skyn að Tesla hefði selt bitcoinforða sinn . Nýjasta höggið kom í gær þegar að kínversk stjórnvöld bönnuðu fjármála- og greiðslumiðlunarfyrirtækjum þar í landi að nota rafmyntir í þjónustu sinni. Þá vöruðu þau einnig fjárfesta við spákaupmennsku í rafmyntum.

Undanfarna viku hafa meira en 250 milljarðar dollara af markaðsvirði bitcoin þurrkast út og undirstrikar það ágætlega hversu sveiflukennd myntin getur verið. Þrátt fyrir mikil áföll undanfarna daga hefur gengi myntarinnar samt sem áður þrefaldast á ársgrundvelli.