*

sunnudagur, 19. september 2021
Erlent 22. febrúar 2021 15:10

Bitcoin lækkar eftir annað tíst frá Musk

Gengi Bitcoin lækkaði um tæplega 10% í dag eftir tíst Elon Musk um að rafmyntin væri of hátt verðlögð.

Ritstjórn
Elon Musk
epa

Gengi Bitcoin hefur nærri tvöfaldast það sem af er ári. Þar spilar meðal annars inn í stuðningur Elon Musk, stofnanda Tesla, við rafmyntina. Hún hefur þó sveiflast mikið eftir að Musk tístaði á laugardaginn að hún virtist hátt verðlögð. 

Rafmyntin lækkaði um meira en 16% og fór undir 50.000 dali í New York á örfáum klukkustundum eftir tíst Musk á laugardaginn, að því er segir í frétt Bloomberg. Hún náði sér þó snögglega aftur á strik og var nálægt því að fara yfir 59.000 dali á sunnudaginn. Gengi Bitcoin lækkaði aftur um rúm 10% í dag.  

Viðmælandi Bloomberg telur að verðsveiflurnar yfir helgina skýrist af viðskiptum áhugafjárfesta. Fyrir vikið gæti lækkunin í dag skýrst af viðbrögðum stærri rafmyntafjárfesta, sem fylgja hefðbundnum vinnutímum, við tíst Musk. 

Bitcoin hækkaði um 17% í lok janúar þegar Musk breytti persónulegri lýsingu (e. bio) sinni á Twitter í #bitcoin í lok janúar. Rafmyntin hefur hækkað verulega síðan þá, sérstaklega eftir að rafbílaframleiðandinn Tesla tilkynnti að hann hefði fjárfest fyrir 1,5 milljarð dala í Bitcoin og hygðist byrja að taka við greiðslu fyrir bíla sína í rafmyntinni í náinni framtíð. 

Stikkorð: Bitcoin Elon Musk