Bitcoin náði sex mánaða hámarki í $62,991 í dag og var hársbreidd frá sínum hæstu hæðum ($64,895) þar sem fjárfestar veðjuðu á að komandi skráning framvirks kauphallasjóðs myndi stórauka flæði fjárfestinga í Bitcoin og aðrar rafmyntir.

Bitcoin hefur hækkað um 40% í þessum mánuði vegna væntinga um að tilkoma sérstakra Bitcoin kauphallasjóða, sem eru í burðarliðunum, muni hleypa fjármagni frá lífeyrissjóðum og öðrum stofnanafjárfestum inn í rafmyntina.

ProShares' Bitcoin Strategy ETF er framvirkur kauphallasjóður sem búist er við að verði skráður á markað á þriðjudaginn undir auðkenninu BITO, að því tilskyldu að bandarískar eftirlitsstofnanir heimili það.

Greinendur vöruðu við því að sjóðurinn myndi ekki fjárfesta beint í rafmyntinni heldur frekar í framtíðarsamningum í Chicago og myndi því ekki hafa áhrif strax á flæði fjárfestinga í Bitcoin.

Kauphallasjóðir með rafmyntir hafa verið skráðir á markað í Kanada og Evrópu á þessu ári sem hefur aukið áhuga á stafrænum eignum.