Meiri orka er notuð til að „grafa“ eftir bitcoin heldur en notuð er á Íslandi á ársgrundvelli samkvæmt nýrri rannsókn. Ísland er í hópi 159 landa sem nota minni orku heldur en rafmyntin að því er Business Insider greinir frá.

Fyrirtækið PowerCompare áætlar að orkunotkun til þess að grafa eftir bitcoin hafi verið 29,05 TWst. Til samanburðar var heildarnotkun raforku á Íslandi árið 2014 tæplega 18 TWst  og þá er meðtalin notkun alls orkufreks iðnaðar hér á landi að því er kemur fram á heimasíðu Orkustofnunar.

Meðal þeirra landa sem eru á fyrrnefnda listanum auk Íslands eru Írland, Slóvakía, Serbía, Norður-Kórea, Eistland, Lúxemborg og flest lönd Afríku.

Þegar grafið er eftir Bitcoin er í raun verið að halda úti greiðslukerfi myntarinnar þar sem einstaklingar geta notað reiknigetu tölvu til þess að leysa verkefni á sviði dulkóðunar og fá Bitcoin að launum.

Samkvæmt mælingum er orkumagnið sem notað er til að framkvæma greiðslur með Bitcoin 20.000 sinnum meira heldur en þegar greiðslur fara fram með Visa kortum.