Bitcoin gröftur þarfnast allt of mikillar orku og notar jafn mikið rafmagn og G-20 hagkerfi segir Christine Lagarde forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í viðtali við Bloomberg á ársfundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos. „Okkar mat er að árið 2018 muni kerfið nota jafn mikla raforku og Argentína.“

Raforkuþörf allra tölvanna sem reka bálkakeðjuna (e. blockchain), tæknina á bakvið bitcoin, þrefaldaðist á síðasta ári og varð meira en 37 GWst á dag.

Há verð á rafmyntinni hafa leitt til þess að fleiri grafa eftir bitcoin en greinandi sem Bloomberg ræðir við segir ómögulegt að vita hvert markaðurinn stefnir. Ef verð á rafmyntinni helst hátt mun raforkunotkun hennar einnig haldast mikil. Framfarir í reiknigetu tölva gætu þó orðið til þess að kerfið þarfnist minni orku.