Gengi rafmyntarinnar Bitcoin náði í gær yfir 3.000 dollara í fyrsta skipti. Náði gengið sínu hæsta gildi frá upphafi í nótt þegar gengið stóð í 3.040 dollurum en hefur lækkað skarpt það sem af er degi og stendur nú í 2.802 dollurum.

Ástæða hækkunarinnar í síðustu viku er sú að Bitcoin markaðssvæði í Kína opnuðu aftur fyrir úttektir í rafmyntinni eftir skorður voru settar á úttektir í febrúar síðastliðnum.

Gengi Bitcoin hefur hækkað um rúm 200% það sem af er ári eftir aukningu í eftirspurn á mörkuðum í Asíu. Er talið að aukna eftirspurn megi rekja til stefnubreytingar stjórnvalda í Japan auk fleiri Asíulanda sem hafa auðveldað viðskipti með Bitcoin.