Gengi Bitcoin fór í 50.584,85 Bandaríkjadali fyrr í dag, en það er hæsta gengi rafmyntarinnar frá upphafi og jafnframt í fyrsta sinn sem gengi hennar rífur 50 þúsund dollara múrinn.

Gleðin varði þó ekki lengi því þegar þetta er skrifað var gengi Bitcoin rétt ríflega 49 þúsund dollarar. Gengi rafmyntarinnar hefur hækkað mjög undanfarna mánuði en verðmæti hennar hefur ríflega tvöfaldast á tveimur mánuðum, en fyrir réttum tveimur mánuðum, þann 16. desember síðastliðinn, rauf myntin 20 þúsund dollara múrinn.

Samkvæmt heimildarmanni WSJ skýrist hin mikla hækkun á gengi rafmyntarinnar einfaldlega á lögmáli framboðs og eftirspurnar. Mikið ójafnvægi hefur verið á uppgreftri Bitcoin annars vegar og Bitcoin kaupum hins vegar.

Um 150.000 ný Bitcoin voru grafin upp á tímabilinu frá því í ágúst og út desember á síðasta ári, en á sama tímabili voru um 359 þúsund Bitcoin keypt en framhald mun hafa verið á ójafnvægi þessu það sem af er ári.

Þá hafa viðtökur fyrirtækja og fjárfesta á myntinni aukið á eftirspurn. Nokkur stórfyrirtæki hafa gefið það út að þau muni innleiða Bitcoin í greiðslulausnir sín á næstunni, þar á meðal elsti banki Bandaríkjanna, Bank of New York Mellon, Mastercard og Tesla, en Tesla fjárfesti jafnframt fyrir um 1,5 milljarð Bandaríkjadala í myntinni.

Nokkur fjármálafyrirtæki hafa þegar innleitt Bitcoin í greiðslulausnir sínar, þar á meðal PayPal, Robinhood Markets og Square. Þá hafa auðugir fjárfestar á borð við Elon Musk stokkið á Bitcoin vagninn.