Gengi rafmyntarinnar Bitcoin nemur nú ríflega 60 þúsund dölum og hefur gengið aldrei verið hærra. Gengi rafmyntarinnar hefur verið á miklu skriði undanfarna mánuði og hefur gengið til að mynda um það bil tvöfaldast frá áramótum.

Sitt sýnist hverjum um ágæti Bitcoin. Fylgjendur rafmyntarinnar telja að hún sé komin til að vera og að gengið muni aðeins halda áfram að hækka með tíð og tíma. Sumir efast um það og telja að Bitcoin sé sígilt dæmi um bólu sem muni að lokum springa með látum. Svo finnast eflaust hinar ýmsu skoðanir á rafmyntinni á milli þessara tveggja andstæðu póla.

Fræðimenn vara við Bitcoin

Meðal efasemdamanna eru Seðlabankastjórinn Ásgeir Jónsson, prófessorinn og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherrann Gylfi Magnússon, og Jón Daníelsson, prófessor við LSE háskólann í Lundúnum.

Í nýlegu viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni varaði Ásgeir við kaupum á rafmyntum á borð við Bitcoin. Líkti hann kapphlaupinu við þátttöku í píramídasvindli. „Bitcoin sem gjaldmiðill lýtur engum landamærum og felur í sér raun og veru mikla sóun þar sem það er mikil orka sem fer í námugröft á þessari mynt," sagði Ásgeir m.a. í viðtalinu.

Gylfi Magnússon tók í sama streng í grein sem hann ritaði nýlega í Vísbendingu . Þar sagði hann verð­þróun raf­mynt­ar­innar Bitcoin á síð­ustu vikum svipa til Túlíp­ana­æð­is­ins í Hollandi á 17. öld. Umrætt æði er talið vera ein fyrsta skrásetta efnahagsbóla sögunnar. Að sögn Gylfa er nota­gildi Bitcoin tak­markað og þ.a.l. magn við­skipta með hana tak­mark­að. Þar sem vinnsla hennar sé kostn­að­ar­söm muni rafmyntin eyða meiri verð­mætum heldur en hún skap­ar.

Jón Daníelsson steig einnig fram á svipuðum tíma og fyrrnefndir fræðimenn og færði rök fyrir því hvers vegna heimur þar sem Bitcoin léki lykilhlutverk hugnist sér illa. Í grein sem hann skrifaði um málið, sem birt var á vefsvæðinu Voxeu og Viðskiptablaðið skrifaði frétt upp úr, líkti Jón Bitcoin við klæðalausan keisara .

Verðmæti Bitcoin byggir einungis á væntingum um velgengni í framtíðinni, þar sem þær eru ekki mjög nytsamlegar í dag, að sögn Jóns. Ef ekkert meira liggi að baki verðmæti rafmyntarinnar muni einn daginn lítill drengur kalla „keisarinn er ekki í neinum fötum," og verðið muni hrapa. Þá líkti Jón Bitcoin við sértrúarsöfnuð í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir um þremur árum síðan.

Gefur lítið fyrir gagnrýnina

Kjartan Ragnars, sem nýlega tók við sem framkvæmdastjóri Rafmyntaráð Íslands, hefur stigið fram í fjölmiðlum og svarað gagnrýni fræðimannana. Í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni hvatti hann þá Ásgeir og Gylfa til að kynna sér Bitcoin betur .

Hann hefur m.a. bent á að eftirlit með rafmyntinni hafi aukist verulega undanfarin ár. Þá sé Bitcoin þeim kosti gætt að vera laust undan afskiptum stjórnvalds. Ekki sé hægt að minnka verðgildi hvers Bitcoin með aukinni útgáfu, þar sem að magnið sé fast. Það sé ljóst að 21 milljón Bitcoin verði gefin út og engin leið sé til að auka framboðið.

Þá bendir hann á að stór fyrirtæki og fjárfestar, sérstaklega í Bandaríkjunum hafi verið að setja fjármagn í Bitcoin sem ekki tengist fjárfestingastarfsemi sem slíkri og það sé byltingarkennt. Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur til að mynda keypt Bitcoin fyrir 1,5 milljarða dala.

„Það er í rauninni að kaupa Bitcoin í þeim tilgangi einum að verja kaupmátt lausafjárins. Það eru engin fjárfestingasjónarmið eða spákaupmennsku sjónarmið þar að baki," sagði Kjartan í samtali við RÚV .

Það er því nokkuð ljóst að sitt sýnist hverjum um rafmyntina Bitcoin. Eitt er þó víst að það verður fróðlegt að sjá hvort um sé að ræða efnahagsbólu sem muni að lokum springa, eða hvort Bitcoin sé byltingarkennd lausn sem muni gjörbylta fjármálakerfi heimsins. Að sjálfsögðu eru ýmsir möguleikar þarna á milli um hver framtíðarörlög Bitcoin munu á endanum verða.