Í dag hefur verð á rafræna gjaldmiðlinum Bitcoin náð upp fyrir 1.000 Bandaríkjadala markið og náð sínu sterkasta gildi í meira en þrjú ár.

Stendur eitt Bitcoin nú í 1.027,51 dal sem gefur að heildarandvirði þeirra Bitcoin eininga sem eru í umferð sé umfram 16 milljarða dali.

Á síðustu mánuðum hefur gengi Bitcoin styrkts sem kemur til meðal annars vegna veikingar kínverska júansins en einnig vegna óvissu á heimsmörkuðum og aukins áhuga hefðbundinna fjárfesta á myntinni sem hluta af eignasafni sínu.

Afleiðing 0% vaxta

„Við erum að sjá afleiðingar af núll prósent vöxtum," segir Bobby Lee, framkvæmdastjóri BTC China, sem er einn stærsti aðilinn sem verslar með Bitcoin í samtali við CNBC.

„Bitcon er áminning um að við þurfum ekki að halda í dali eða renminbi (júan), sem hlýta þurfi gjaldeyrishömlum og lækkandi kaupmætti. Heldur er þetta nýr eignaflokkur.“

Meirihluti viðskipta með Bitcoin koma frá Kína og hafa markaðsaðstæður þar í landi því mikið að segja um verðþróun myntarinnar, en síðan tók hún einnig kipp í kjölfar sigurs Trump í bandarísku forsetakosningunum.

Helmingun tryggir takmarkað framboð

Annað sem hafði mikil áhrif var að í júní varð ákveðin breyting á arðinum af því að framkvæma aðgerðir með myntina sem innbyggð er í uppbyggingu myntarinnar.

Uppbyggingin gerir ráð fyrir að heildarmagn eininga sem eru í boði sé takmarkað en það er gert með svokallaðri helmingun.

Þeir sem sjá um að staðfesta verslun með bitcoin, ferli sem kallað er námuvinnsla eða "mining" fá nú minna fyrir sama gagnamagn sem þeir vinna sig í gegnum en áður.