Verð Bitcoin rauk upp á föstudaginn eftir að Xi Jinping, forseti Kína, gaf út að kínverska ríkið hyggðist auka fjárfestingu sína í bjálkakeðja, tækninni á bak við rafmyntir. Xi sagði að tækifæri væru til að nýta tæknina á ýmsum sviðum á borð við fjármálamörkuðum, í samgöngum og við að draga úr fátækt.

Verð á Bitcoin hækkaði í kjölfarið um 42% á föstudaginn og fór yfir tíu þúsund dollara í fyrsta sinn í yfir mánuð. Hækkunin er sú þriðja mesta á einum degi frá því að rafmyntin var fyrst gefin út.

Yfirlýsingin þykir merkileg á sama tíma og sótt er að rafmyntum úr ýmsum áttum. Á miðvikudaginn kom Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum vegna Libra, rafmyntarinnar sem Facebook hyggst gefa út. Í kjölfarið lækkaði verð á Bitcoin í 7.400 dollara sem þá var lægsta verð Bitcoin í fimm mánuði. Nýlega hættu fyrirtæki á borð við PayPal, Visa, Mastercard, Stripe, Booking og eBay við að taka þátt í að koma Libra á fót.