*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Erlent 8. janúar 2021 15:58

Bitcoin yfir 41.000 dollara

Ævintýraleg hækkun verðs á Bitcoin heldur áfram en það hefur meira en tvöfaldast í verði á innan við mánuði.

Ritstjórn
epa

Verð á Bitcoin fór yfir 41 þúsund dollara í dag og hefur aldrei verið hærra. Rafmyntin fór í fyrsta sinn yfir 20 þúsund dollara í desember og hefur síðan þá tvöfaldast í verði. Hækkunin hefur verið hröð enda fór Bitcoin í fyrsta sinn yfir 30 þúsund dali á laugardaginn.

Rafmyntin hafði áður farið hæst í ríflega 19 þúsund dollara í desember 2017. Þá féll rafmyntin hins vegar skarpt í kjölfarið og var komin niður í 4 þúsund dollara ári síðar. 

Þeir sem hafa trú á Bitcoin segja breytta tíma vera nú. Þekktir fjárfestar hafa fjárfest í rafmyntinni að undanförnu, til að mynda Paul Tudor Jones, Bill Miller, Stanley Druckenmiller og fyrirtækið Square sem stýrt er af Jack Dorsey sem einnig er forstjóri Twitter. Paypal og fleiri greiðslumiðlanir hafa einnig opnað fyrir viðskipti með Bitcoin.

Þá sjá margir Bitcoin sem hugsanlega vörn gegn verðbólgu og gengislækkun Bandaríkjadals eftir peningaprentun síðustu mánaða. En að sama skapi hefur verðhækkun Bitcoin verið tengd við örvunaraðgerðir seðlabanka og ríkisstjórna heimsins sem leitt hafa af sér mikla hækkun á verði hlutabréfa og annarra eignaflokka.

Verð á Bitcoin sveiflaðist töluvert á síðasta ári og fór lægst í mars undir 4 þúsund dollara í mars en hefur meira en tífaldast í verði síðan þá.

WSJ hefur eftir greinandanum Craig Erlam að hækkun síðustu daga sé drifin áfram af ótta fjárfesta við að missa af lestinni og hagnast á hækkun Bitcoin, sem veldur því að myntin hækkar enn frekar. 

Álitsgjafar WSJ segja hættu á að um bólu sé að ræða, en engu síður sé alls óvíst hvenær hún springi. WSJ hefur eftir vogunarsjóðsstjóranum Mark Dow að þó hann hafi áður mælt með að fjárfestar skortseldu Bitcoin og veðjuðu þannig á að myntin lækkaði í verði gerði hann það ekki nú. Það kæmi honum ekki á óvart að hún héldi áfram að hækka og gæti þess vegna farið í 200 þúsund dollara. Mikið fé sé að elta takmarkað magn rafmyntarinnar. 

Alex Mashinsky, sem stýrir eignarstýringarfyrirtækinu Celsius Network, hefur áhyggjur af því hve margir séu að fjármagna kaup á rafmyntum með lánsfé og telur að Bitcoin hljóti að falla á ný. Ekki sé ólíklegt að verðið falli í 16 til 20 þúsund dollarar fyrir marslok.