Gengi rafmyntarinnar Bitcoin fór fyrr í dag yfir 4.500 dollara. Er þetta í fyrsta skiptið sem stafræna gullið rífur 4.500 dollara múrinn. Náði gengi myntarinnar sinni hæstu stöðu frá upphafi þegar það stóð í 4.520 dollurum en hefur síðan gefið eftir og stendur nú í 4282 dollurum, samkvæmt vefsíðunni Coindesk .

Þegar gengið stóð sem hæst í dag nam markaðsverðmæti Bitcoin 73,5 milljörðum dollara. Á þeim tímapunkti varð myntin verðmætari en Netflix en markaðsverðmæti streymisveitunnar nemur 72.5 milljörðum dollara.

Gengi Bitcoin hefur rúmlega fjórfaldast það sem af er þessu ári. Frá því að myntin skiptist í tvennt þann 1. ágúst síðastliðinn hefur gengi Bitcoin hækkað um rúmlega 56%.