Gengi Bitcoin fór yfir 50 þúsund dali í gær í fyrsta skipti í þrjá mánuði, en 50 þúsund dalir samsvara um 6,4 milljónum króna á gengi dagsins. Gengið hefur hækkað um 70% frá því að það var komið niður í um 29.600 dali í síðasta mánuði. WSJ fjallar um málið.

Gengi Bitcoin náði hámarki í 64 þúsund dölum um miðjan apríl en féll skarpt í maí eftir að Kína bannaði fjármála- og greiðslufyrirtækjum að veita þjónustu tengda rafmyntum, auk þess sem Tesla hætti að taka við Bitcoin greiðslum.

Undanfarið hafa ýmis fjármálafyrirtæki verið jákvæðari í garð Bitcoin, þar á meðal PayPal Holdings sem í gær tilkynnti um fyrirætlanir fyrirtækisins að þjónusta breska viðskiptavini hvað varðar kaup, varðveislu og sölu Bitcoin auk annarra rafmynta en þjónustan hefur verið aðgengileg bandarískum viðskiptavinum fyrirtækisins frá því í nóvember á síðasta ári.

Þá hefur eignastýringarsjóðum tengdum myntinni farið hratt fjölgandi undanfarið. Sé aðeins litið til ágústmánaðar hafa félögin ProShares, Invesco Ltd., VanEck, Valkyrie Digital Assets og Galaxy Digital öll tilkynnt um áform um stofnun sjóða byggða á framvirkum samningum um Bitcoin.