Tónlistarmennirnir sir Paul McCartney og Elvis Costello hafa hljóðritað lag fyrir auglýsingu um grænmetisfæði. Auglýsingin fer í loftið í Bretlandi 28. janúar næstkomandi. Lagið er Heart of the Country, sem kom út á plötunni Ram með þeim Paul og Lindu árið 1971. Bítlarnir voru þá nýhættir. Þau stofnuðu hljómsveitina Wings skömmu eftir útkomu plötunnar. Það er enginn annar en tónblistarmaðurinn og upptökustjórinn Mark Ronson sem stýrði tökkunum. Í auglýsingunni spilar McCartney lagið en Costello talar yfir hana.

Maturinn sem er auglýstur er nátengdur félögunum en um er að ræða vörulínu sem Linda McCartney, kona bítilsins, setti á markað árið 1991. Linda lést árið 1998. Þeir Paul McCartney og Costello hafa verið grænmetisætur um árabil.

Á vef breska dagblaðsins Guardian um málið í dag segir að þetta sé líklega fyrsta skiptið sem Paul McCartney tekur upp lag fyrir auglýsingu. Nokkur ár eru hins vegar liðin síðan lög Bítlanna og McCartneys voru notuð í auglýsingar. Þessu til viðbótar eru heil fimmtán ár síðan matur úr vörulínu Lindu var auglýstur í sjónvarpi. Bandaríska matvælafyrirtækið Hain Celestial Group keypti matvörufyrirtæki Lindu McCartney árið 2006.

Hér má sjá auglýsinguna og hlusta á lagið: