*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 30. mars 2018 10:01

Bitnar mest á smáum ríkjum

Hagfræðingur segir að ef til alþjóðlegs viðskiptastríðs kæmi yrði Ísland í mjög vondum málum.

Snorri Páll Gunnarsson
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Ef boðuð tollastefna Bandaríkjanna þróast í viðskiptastríð á heimsvísu mun það hafa mjög slæm áhrif á heimshagkerfið - og sérstaklega lítil ríki á borð við Ísland, að mati hagfræðings. Ef mönnum tekst að semja verði afleiðingarnar varla miklar.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lagt háa tolla á innflutningsvörur á borð við sólskildi, þvottavélar, ál og stál á helstu viðskiptalönd Bandaríkjanna, meðal annars Kína, Kanada, Mexíkó og Evrópusambandið. Á móti hafa þessi lönd hótað gagntollum á bandarískar vörur og öðrum aðgerðum. Hætta er því á að viðskiptastríð brjótist út.

„Viðskiptastríð myndi leiða til minni heimsviðskipta og minni hagvaxtar á heimsvísu. Það kemur ávallt verst niður á litlum ríkjum, eins og Íslandi, sem græða miklu meira á utanríkisviðskiptum heldur en stór ríki,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræðideild Háskóla Íslands.

Hann útskýrir að utanríkisverslun gerir smáum ríkjum kleift að flytja út fáar en sérhæfðar útflutningsvörur. Aðgengi að stórum fríverslunarsvæðum skipti þar máli vegna veikrar samningsstöðu lítilla ríkja gagnvart stórum ríkjum í tvíhliða samningaviðræðum. Stór ríki hafa á hinn bóginn markaðsvald og geta notað það til að kúga smærri ríki. Þegar Rússlandsmarkaður lokaðist fyrir Íslandi vegna alþjóðlegra efnahagsþvingana gegn Rússlandi og Rússland svaraði með viðskiptabönnum – sem er hálfgert viðskiptastríð – hafi það til að mynda komið hart við íslenska hagsmuni, aðallega í sjávarútvegi.

„Það er litlum ríkjum því til hagsbóta að það sé regluverk til staðar samkvæmt Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem tryggir samkeppni á jafnræðisgrundvelli. En ef Bandaríkjamenn komast upp með það að fara í kringum stofnunina með þessum tollum og hún dæmist ómarktæk, þá er Ísland í mjög vondum málum,“ segir Ásgeir. Samkvæmt Samtökum atvinnulífsins þurfa útflutningstekjur Íslands að aukast um 50 milljarða króna á ári til að viðhalda 3% hagvexti næstu 20 árin.

Heiminum snúið á haus

Ásgeir segir þá stöðu sem upp er komin á alþjóðasviðinu vera einkennilega og að óvissan sé gríðarlega mikil.

„Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa Bandaríkin beitt sér á alþjóðavettvangi sem leiðandi ríki í frjálsum heimsviðskiptum og Kína hefur tileinkað sér verndarstefnu. Í dag virðist sem að verið sé að snúa þessu á haus,“ segir Ásgeir.

Þannig virðast Bandaríkin vera að draga úr leiðtogahlutverki sínu í alþjóðaviðskiptum og færast í átt til verndarstefnu, á meðan Kínverjar segjast – að minnsta kosti í orði – vilja frjáls viðskipti. Kínverjar hafa þar að auki metnaðarfull áform um „belti og veg“ til að auka umsvif sín í heiminum og jafnvel ná heimsyfirráðum. Á sama tíma hafi hin pólitíska orðræða í heiminum færst hratt í átt að verndarhyggju, þótt hún hafi enn sem komið er ekki brotist fram í heimsviðskiptum að verulegu leyti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.