Óvissa um Bitruvirkjun réð ekki úrslitum um ákvörðun norska stórfyrirtækisins REC að reisa sólarkísilverksmiðju í Quebec í Kanada en ekki í Þorlákshöfn. REC sendi frá sér tilkynningu í fyrradag þess efnis að ákveðið hefði verið að reisa verksmiðjuna vestanhafs. Áætlað er að verksmiðjan hefji starfsemi ekki síðar en á árinu 2012.

Fyrst var greint frá því í apríl að REC hefði áhuga á að reisa verksmiðjuna í Þorlákshöfn. Félagið hafði eytt nokkrum fjárhæðum í rannsóknar- og kynningarstörf vegna þess. Nokkur óvissa hefur ríkt um Bitruvirkjun, m.a. vegna þess að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur frestaði rannsóknum vegna hennar í byrjun sumars.

Jon André Løkke, forstöðumaður samskiptasviðs hjá REC, segir í samtali við Viðskiptablaðið að óvissa um orkuöflun á Íslandi hafi ekki ráðið úrslitum um staðsetninguna. Løkke segir að yfir hundrað staðir hafi verið skoðaðir víðsvegar um heim, og Kanada og Ísland hafi verið tveir lokavalkostir. „Þessar staðsetningar eru svo að segja ja fnhentugar fyrir okkar starfsemi. Áhættan við að reisa verksmiðjuna á Íslandi var hins vegar ívið meiri,“ segir hann og leggur áherslu á að afar litlu hafi munað á fýsileika staðsetninganna tveggja.

„Við hefðum þurft að reisa viðameira stoðkerfi við verksmiðjuna í Þorlákshöfn. Einnig hefðum við þurft að flytja meira vinnuafl inn til Íslands en Kanada, þá bæði til að reisa verksmiðjuna og reka hana,“ segir Løkke. „Við höfðum engar áhyggjur af því að fá ekki nægilega orku, það hafði ekkert með ákvörðunina að gera.“

Reuters greindi frá því í fyrrakvöld að samkvæmt kostnaðarmati REC muni fjárfesting fyrirtækisins vegna byggingar verksmiðjunnar í Kanada nema um 1,2 milljörðum dollara. Eric Thorsen, forstjóri REC, segir þó í samtali við Reuters að endanlegt kostnaðarmat liggi ekki fyrir. REC hefur gert samning til 20 ára við orkufyrirtækið HYdri Quebec um orkuöflun, en sólarkísilverksmiðjur eru afar orkufrekar.