Bygging Bitruvirkjunar er ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu, að því er fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 135 MW jarðvarmavirkjunar á Bitru í sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í niðurstöðu stofnunarinnar segir m.a. að um sé að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og búi svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni.

„Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis,” segir m.a. í áliti stofnunarinnar.

Setja þarf margvísleg skilyrði fyrir Hverahlíðarvirkjun

Einnig hefur Skipulagsstofnun gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum allt að 90 MW jarðvarmavirkjunar við Hverahlíð, Sveitarfélaginu Ölfusi og telur hún að setja þurfi skilyrði fyrir framkvæmdinni. Þurfi þau að lúta að áhrifum á jarðhitaauðlindina, áhrifum á grunnvatn og áhrifum á loftgæði.

„Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð virkjun við Hverahlíð komi til með að hafa talsverð neikvæð sjónræn áhrif sem muni breyta ásýnd svæðis við Suðurlandsveg og hafa í för með sér talsvert rask á mosavaxinni hraunbreiðu,” segir m.a. í áliti stofnunarinnar.

„Svæðið er hins vegar að mörgu leyti einsleitt m.t.t. landslagsásýndar og nálægð við fjölfarinn þjóðveg og nágrenni áhrifasvæðis Hellisheiðarvirkjunar gerir það m.a. að verkum að upplifun svæðisins sem lítt snortins kyrrláts svæðis er ekki fyrir hendi.”

Einnig bendir stofnunin á að mikil óvissa sé um áhrif fyrirhugaðrar virkjunar við Hverahlíð á jarðhitaauðlindina, áhrif á loftgæði ráðast alfarið af virkni hreinsibúnaðar fyrir brennisteinsvetni sem fyrirhugað er að koma upp og áhrif á grunnvatn ráðist af því að skiljuvatni verði veitt um fóðraðar niðurrennslisholur niður fyrir grunnvatnsborð.