Menntamálanefnd Alþingis hefur frestað því að taka afstöðu til þeirra tillagna sem fram komu í frumvarpi menntamálaráðherra um takmarkanir Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Í staðinn hefur nefndin lagt fram sitt eigið frumvarp þar sem hún í athugasemdum beinir þeim tilmælum til RÚV að ganga hóflega fram á auglýsingamarkaði þar til málið hefur verið afgreitt á Alþingi.

Nefndin mælir í frumvarpinu fyrir hækkun nefskattsins í 17.200 krónur en í frumvarpi menntamálaráðherra frá því fyrr í mánuðinum var ráðgert að skatturinn yrði 17.900 krónur. Núgildandi lög kveða á um nefskatt upp á 14.580 krónur en þessi sérstaki skattur verður lagður á landsmenn á næsta ári, í stað afnotagjalda.

Svigrúm RÚV takmarkað til að stuðla að fjölbreyttu fjölmiðlaumhverfi

Menntamálaráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, lagði fram á Alþingi hinn 10. desember frumvarp um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið ohf. Í frumvarpinu voru meðal annars lagðar til ýmsar takmarkanir á möguleika Ríkisútvarpsins  til að afla sjálfstæðra tekna.

„Með því að takmarka svigrúm Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er stefnt að því að treysta rekstur sjálfstætt starfandi fjölmiðla og stuðla að sem fjölbreyttustu fjölmiðlaumhverfi á Íslandi," sagði meðal annars í skýringum frumvarpsins sem menntamálaráðherra mælti fyrir á Alþingi um miðjan mánuðinn.

Tillögur ráðherrans byggðu á vinnu sérstakrar nefndar sem hún hafði skipað fyrr í vetur.

Eftir fyrstu umræðu fór frumvarpið í nefnd en í dag var ljóst að nefndin myndi ekki afgreiða frumvarp menntamálaráðherra.

Starfshópurinn fjalli aftur um auglýsingamarkaðinn

Í staðinn lagði nefndin sitt eigið frumvarp fram á Alþingi, eins og áður sagði, þar sem segir meðal annars í skýringum að nefndin telji „nauðsynlegt að sá starfshópur sem starfað hefur á vegum menntamálaráðherra og fjallað hefur um stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði útfæri tillögur um takmörkun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði," eins og segir í skýringum frumvarpsins.

„Samhliða leggi starfshópurinn fram tillögur að reglum um eignarhald á fjölmiðlum. Þetta skuli gert eigi síðar en 15. febrúar 2009."

Nefndin áréttar á sama tíma að  reglur sem varða takmörkun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verða áfram til meðferðar hjá menntamálanefnd.

Að síðustu segir nefndin:  „Við umfjöllun um málið kom til tals sá möguleiki að lögfesta ákvæði sem kveði á um bann við því að Ríkisútvarpið afli sér auglýsingatekna að eigin frumkvæði. Nefndin telur hins vegar ekki ástæðu til að gera tillögur um slíkt bann að sinni en beinir þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að ganga hóflega fram þar til málið hefur verið afgreitt á Alþingi."