Morguninn 28. mars birti Wow air tilkynningu á heimasíðu sinni um að félagið væri hætt starfsemi. Daginn áður höfðu forsvarsmenn Wow bundið vonir við að skuldabréfaeigendur myndu taka félagið yfir og þannig hafði þeim tekist að „róa taugarnar hjá almenningi“, eins og það er orðað í bókinni, „WOW: Ris og fall flugfélags“ eftir Stefán Einar Stefánsson, sem kom út í dag. Í bókinni, sem telur tæplega 400 síður, segir ennfremur að staðan um kvöldið 27. mars hafi verið orðin það slæm að klukkan ellefu um kvöldið hafi forsvarsmenn Wow ákveðið að ganga á fund Samgöngustofu til að leggja inn flugrekstrarleyfið.

„En þá sást í tíru,“ segir í bókinni.  „Fyrir milligöngu lykilfólks innan Wow air hafði tekist að koma á fundi með Hugh Short, forstjóra PT Capital, sem er bandarískur fjárfestingarsjóður. Hann var þá staddur hér á landi vegna annarra verkefna. Hann var að auki mjög vel kunnugur Liv Bergþórsdóttur, stjórnarformanni Wow, og Björgólfi Thor sem nú var orðinn hluthafi í félaginu á grundvelli þátttöku sinnar í skuldabréfaútboðinu í september 2018. Kynni þeirra voru til komin vegna fjárfestingar sjóðsins í símafélaginu Nova sem Björgólfur á og Liv var forstjóri yfir um langt árabil. PT Capital hefur fjárfest í KEA-hótelum og því lagt fjármagn undir í tengslum við uppgang íslenskrar ferðaþjónustu.

Vandinn var aðeins einn. Short gat ekki hitt á fulltrúa Wow air fyrr en eldsnemma að morgni fimmtudagsins 28. mars en þá var ljóst að kyrrsetning vélanna yrði orðin að veruleika og farþegar sætu sem strandaglópar beggja vegna Atlantshafsins. En þarna var dauðafæri sem varð að láta á reyna. Flugrekstrarleyfinu var ekki skilað inn á fyrrgreindum tíma […]Gripu í tómt

„Seint um kvöldið hér heima var fundi komið á með Short og hann skyldi fara fram á Hótel Borg klukkan sex um morguninn. Og þangað mættu þeir tveir, Guðmundur Ingvi Sigurðsson, fulltrúi skuldabréfaeigenda, og Bjarni Þórður Bjarnason, frá Arctica Finance. Til þess að áætlunin gengi upp þurftu þeir lífsnauðsynlega að fá undirskrift Shorts á drögum að samkomulagi um fjárfestingu PT Capital í WOW air. Þau drög höfðu verið send á hans fólk um kvöldið. Tillagan fólst í fjörutíu milljóna dollara innspýtingu gegn 60% hlut í félaginu.

Ef undirskriftin fengist mætti veifa samkomulaginu framan í flugvélaleigusalana og þá væru líkur til þess að vélarnar yrðu leystar úr haldi. En fulltrúar hins aðþrengda flugfélags gripu í tómt. Hugh Short mætti ekki til fundarins og ekkert gekk að ná til hans. Hnípnir hafa þeir gengið út á Austurvöll í morgunsvalanum og þá vissu þeir fyrir víst að dagar WOW air voru taldir. Þung voru skrefin til fundar við Skúla [Mogensen] þar sem þeir báru honum tíðindin um erindisleysuna á Borginni, staðnum þar sem viðskiptaævintýrin höfðu öll átt upphaf sitt þremur áratugum fyrr.

Eflaust hafði Skúli oft hugsað af meiri hlýhug til hótelsins við Völlinn. Nú var kallað eftir fundi með Samgöngustofu. Flugrekstrarleyfið var afhent á lágstemmdri stund á skrifstofum stofnunarinnar í Ármúla.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Rætt við framkvæmdastjóra íslensks fyrirtækis um nýja vöru sem kom á markað nýverið.
  • Fjallað er um afleiðingar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar.
  • Fjallað er um afkomu tryggingarfélaganna.
  • Ítarlegt viðtal við forstjóra Brimborgar.
  • Fjallað er um ferð MBA nema við HR til Boston.
  • Umfjöllun um eignarhald HS Orku.
  • Nýr forstjóri Norðuráls er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um ráðningu nýs seðlabankastjóra.
  • Óðinn skrifar um skrifar um Kaupþingsmálið og skýrslu Seðlabankans.