Bjarka Diego hefur á ný verið birtur úrskurður ríkisskattstjóra þar sem opinber gjöld hans vegna áranna 2005 og 2006 eru endurákvörðuð. Segja má að endurákvörðunin hafi verið gerð á elleftu stundu, því úrskurðurinn er dagsettur 30. desember, en frestur til endurákvörðunar vegna ársins 2005 rann út um áramótin.

Málið snýst um sömu málsatvik og Hæstiréttur dæmdi um í fyrravor, en þar bar Bjarki sigur úr býtum í deilunni við skattinn.

„Þetta er ekki eins há fjárhæð og síðast,“ segir Bjarki, en í fyrra málinu var deilt um ríflega 150 milljóna króna aukaálagningu sem ríkisskattstjóri taldi hann eiga að greiða. „Þetta er þó umtalsverð fjárhæð sem lögð er á mig núna og ef svo fer að ég verð að greiða þetta mun það væntanlega taka mig mjög langan tíma.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.