Stoxx 600 vísitalan evrópska hefur nú verið metin af fréttastofu Bloomberg sem bjarnarmarkaður. Vísitalan féll um 3% í dag, en hefur hrunið um 20% síðan í apríl síðasta árs.

Vísitalan hefur ekki náð slíkri lægð í meira en ár. Líklegt er að sílækkandi olíuverð hafi áhrif á hugarfar fjárfesta, sem ýtir undir stöðugt lægra verð.

Þess má einnig geta að matsaðilar í Bandaríkjunum gáfu út gögn um hagtölur þjóðarinnar í dag. Smásala og bílasala féll um vægar 0,1 prósentustig, og iðnaðarframleiðsla féll einnig um 0,4 prósentustig. Þessi gögn gætu einnig hafa verið áhrifavaldar í ákvörðunum evrópskra fjárfesta.

Hlutabréfamarkaðir eru kenndir við birni þegar hlutabréfaverð fer sílækkandi, sem svo ýtir undir frekari sölu hlutabréfa, sem svo lækkar verð hlutabréfanna. Andstæða bjarnarmarkaðarins er Nautamarkaður, en það er þegar hlutabréfa verð fer síhækkandi.