Framkvæmdastjóri Katla DMI, Bjarnheiður Hallsdóttir hefur borið sigurorð af keppinautum sínum tveimur í formannskjöri Samtaka ferðaþjónustunnar á aðalfundi samtakanna sem nú fer fram á Hótel Sögu.

Túristi greinir frá þessu en í formannskjörinu atti hún kappi við þá Margeir Vilhjálmsson framkvæmdastjóra bílaleigunnar Geysis og Þórir Garðarsson framkvæmdastjóra Gray Line. Róbert Guðfinnsson stjórnarformaður Rauðku dró nýlega framboð sitt til baka líkt og Túristi greindi einnig frá.

Fékk Bjarnheiður 32.062, eða 44,72% atkvæða, á móti 31.990 eða 44,62% atkvæðum Þóris Garðarssonar framkvæmdastjóra Gray Line og hlaut Bjarnheiður því 72 fleiri atkvæði en Þórir. Margeir Vilhjálmsson framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis fékk 7.635 eða 10.65% atkvæða, en atkvæði hvers aðildarfélags er í beinu samhengi við fjárhæð félagsgjalda í samtökin.

Því tekur Bjarnheiður við af Grími Sæmundsen forstjóra Bláa lónsins sem verið hefur formaður samtakanna síðustu 4 árin. Auk kosninga til formanns voru fjórir af átta frambjóðendum valdir til að taka sæti í stjórn samtakanna. Fyrir sitja Ingibjörg Ólafsdóttir hjá Radisson Blu Hótel Sögu og Pétur Þ. Óskarsson hjá Icelandair í stjórninni.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé hjá Kynnisferðum, Ívar Ingimarsson hjá Óseyri, Jakob Einar Jakobsson hjá Jómfrúnni og Ólöf R. Einardóttir frá Mountaineers of Iceland voru kjörin til næstu tveggja ára í stjórn.