„Ég vil bara skjóta því að varðandi höftin, þau munu ekki fara í einu vetfangi, þannig að einn daginn eru þau og næsta dag ekki," segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Þetta kom fram í þættinum Sunnudagsmorgunn hjá Gísla Marteini Baldurssyni þar sem Bjarni var gestur. Bjarni sagði að afnámið gæti hafist í ár en að það færi eftir því hvort hægt væri að samstilla væntingar allra þeirra sem eiga í hlut.

„Þau munu fara í skrefum þannig að þetta verður tímabil þar sem þau smám saman hverfa," segir Bjarni en að hans mati þarf að tryggja stöðugleika, ríkissjóð án mikils halla, ró á vinnumarkaði auk þess sem ekki má vera mikill undirliggjandi verðbólguþrýstingur svo að afnámið geti hafist. „Það þarf að fylgja í kjölfarið trú á framtíðina. Ella munu Íslendingar, fyrirtæki, aðrir vilja snúa krónunum sínum í erlendan gjaldeyri, með neikvæðum afleiðingum fyrir gengið og geyma peningana sína í öðrum myntum. Við viljum opna fyrir sem allra mest frelsi og erum háð því eins og allar aðrar þjóðir að menn hafi trú á því sem er að gerast. Það er liður í því sem við erum að vinna að núna."