Erlendir kröfuhafar gömlu bankanna þurfa að þola það að kröfur þeirra verði afskrifaðar að verulegu leyti í þágu íslensks almannahags, að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sagði hann að staða gömlu bankanna væri ein af ástæðum þess að erfitt yrði að afnema gjaldeyrishöftin.

Til að leysa úr þessum vanda þurfi að afskrifa kröfurnar að verulegu leyti.

Hvað varðar gjaldeyrismál þá sagði Bjarni að hvernig sem færi þá yrði krónan gjaldmiðill Íslands á komandi árum. Haga þurfi hagstjórninni í því ljósi. Hann talaði nokkuð hart gegn Evrópusambandinu í ræðu sinni og sagði hagsmunum Íslands betur borgið utan sambandsins. Það mat hafi verið í sífelldri endurskoðun, en hún sé nú afdráttarlaus.