„Heildarhagsmunir okkar liggja umfram allt í því að þróa heildstæða lausn sem skilur ekki íslenskan almenning eftir í súpunni þegar tilteknir aðilar hafa sótt það af gjaldeyri sem þeim nægir,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Bjarni ávarpaði ársfund Fjármálaeftirlitsijns í dag. Hann sagði að jafnræði væri lykilhugtak.  Að áhættu sé dreift og enginn fái sérlausn.

Bjarni sagði að í almennri umræðu um fjármagnshöft bæri iðulega á því að rætt væri sérstaklega um stöðu slitabúanna og möguleika þeirra til að greiða kröfuhöfum út eignir.  „Minna er gert úr möguleikum hins almenna íslendings til sérlausna - heimilanna, fyrirtækjanna, lífeyrissjóðanna og allra hinna sem eru fastir í þessum sömu höftum og slitabúin,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að þetta bæri með sér að kröfuhafahópum hafi orðið nokkuð ágengt í því að telja fólki trú um, að skjót og farsæl lausn fyrir slitabúin gagnist heildarhagsmunum okkar.  „Fjölmiðlar spyrja sjaldnast um áhrif haftanna á heimilin og fyrirtækin en þeim mun oftar um hvort samtal hafi átt sér stað við kröfuhafa.  Þeir virðast lítt uppteknir af stöðunni fyrir íslenskan almenning ef vanhugsaðar undanþágur yrðu veittar erlendum áhættufjárfestum,“ sagði Bjarni.

Bjarni ítrekaði að fátt væri jafn mikilvægt fyrir íslenskan fjármálamarkað og losun fjármagnshafta. Umfangsmikill undirbúningur hafi staðið yfir undanfarna mánuði fyrir þá vinnu. „Nú er svo komið að tekin hefur verið ákvörðun um að ráða sérstaka framkvæmdastjórn um losun fjármagnshafta. Þetta felur í sér mikla breytingu, en hingað til hefur fjöldi fólks verið í fullu starfi við að fylgja eftir höftunum og tryggja rétta framkvæmd þeirra, en strangt tiltekið aðeins einn haft losun þeirra að meginstarfi,“ sagði Bjarni.