*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 1. febrúar 2017 11:08

Bjarni Ármanns fjárfesti í S4S

Fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, Sjávarsýn, keypti sig inn í skóverslanakeðju. Félagið átti 3,3 milljarða 2015.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hefur keypt hlut í heildversluninni S4S ehf. en hún rekur skóverslanirnar Steinar Waage, Ecco, Kaupfélagið, Skór.is, Toppskórinn og Air.is í Smáralind.

Um er að ræða 26% hlut sem áður var í eigu Ingunnar Gyðu Wernersdóttur en kaupandinn var fjárfestingarfélagið Sjávarsýn í eigu Bjarna, að því er fram kemur á Fréttablaðinu.

Settist Bjarni jafnframt í stjórn S4S ehf. í byrjun nóvember og tók þar sæti Bjarna Hafþórs Helgasonar, fyrrverandi fjárfestingarstjóra KEA, sem er eiginmaður Ingunnar.

Fór Helga Sverrisdóttir, eiginkona Bjarna, inn í varastjórn félagsins í stað Ingunnar á sama tíma.

Hagnaðurinn 111 milljónir

Stærsti eigandi S4S er Pétur Þór Halldórsson sem á 50% hlut í félaginu, en aðrir hluthafar eru Hermann Helgason, framkvæmdastjóri félagsins og Georg Kristjánsson, með sín hvor 12% hlutinn. 

Hagnaður félagsins árið 2015 var 111 milljónir en eignir þess í lok ársins námu 735 milljónum króna. Eigið fé þess var jákvætt um 342 milljónir og eiginfjárhlutfallið var 47%.

Eigandi Ellingsen

Félag Bjarna, Sjávarsýn, á meðal útivistarverslunina Ellingsen, fyrirtækið Ísmar í Síðumúla auk 11,5% hlutar í olíuþjónustufyrirtækinu Fáfnir Offshore.

Kaup Solo Seafood, í eigu Sjávarsýnar auk þriggja íslenskra útgerðarfélaga, á Icelandic Iberica gengu svo í gegn í desember, en um er að ræða fyrrum dótturfélag, og núverandi leyfishafi Icelandic Group á Spáni.

Í árslok 2015 átti Sjávarsýn eignir fyrir 3,3 milljarða.

Stikkorð: Bjarni Ármannson