*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 25. febrúar 2019 15:33

Bjarni Ármannsson „góður söngmaður“

Í endurminningum Helga Magnússonar fer hann m.a. yfir átök í bankaráði Íslandsbanka í aðdraganda hrunsins.

Ritstjórn
Bjarni Ármannsson, fyrrum bankastjóri Íslandsbanka, og síðar Glitnis, er núna forstjóri Icelandic Seafood International.

Í nýrri bók Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings fer Helgi Magnússon fjárfestir yfir endurminningar sínar og segir frá miklum átökum að tjaldbaki í íslensku viðskiptalífi, þar með talið í aðdraganda hrunsins, Hafskipsmálinu sem Helgi sat í gæsluvarðhaldi um tíma meðan á rannsókn málsins stóð, og rekstrinum á málningarverskmiðjunni Hörpu, en bókin, Lífið í lit, dregur nafn sitt af vinsælu slagorði fyrirtækisins.

Þrátt fyrir það inngrip sem Hafskipsmálið var hélt lífið áfram og Helgi segir frá rekstri ferðaskrifstofunnar Útsýnar hf., árunum á Frjálsri verslun, miklum uppgangi Hörpu hf., þátttöku sinni í stjórnum lífeyrissjóða á umbrotatímum og valdatafli í Íslandsbanka sem hófst um aldamótin síðustu.

Helgi stýrði Samtökum iðnaðarins þegar hrunið varð og í bókinni lýsir hann erfiðum samskiptum við stjórnvöld, en fjallar líka um góðan árangur í viðskiptum sem hann hefur tengst á síðari árum. Helgi er einn stofnenda Viðreisnar og hér birtist í fyrsta sinn sagan af tilurð þess stjórnmálaflokks.

Íslandsbanki elti hina bankana í útrás

Meðal frásagna í bókinni er að Helgi segir frá innanhúsátökum í bankaráði Íslandsbanka, þar sem Helgi sat árin 1997 til 2005, framan af sem fulltrúi lífeyrissjóðarins Framsýn. Segir hann andrúmsloftið þar innanhús hafa versnað með innkomu Karls Wernerssonar, með aukinni tortryggni og flokkadráttum.

Á sama tíma hafi staðið styr um útrásarhugmyndir Bjarna Ármannssonar, sem Helgi segir fyrst og fremst hafa einkennst af því að elta hina bankana, en hann hafi jafnframt tekið hugmyndum um sameiningu við Landsbankans vægast sagt illa.

En Helgi segir Bjarna þó hafa gert margt vel, hann hafi verið talnaglöggur, en einnig góður söngmaður sem hafi heillað fólk með framkomu. Hann hafi getað verið manna hressastur, ýtt af stað fjöldasöng og að hann hefði getað lagt undir sig tónlistina. Sérstaklega hafi stuðmannalög verið vinsæl hjá honum.

Hér má sjá lesa brot úr bókinni, af blaðsíðu 398 og áfram:

Andrúmsloftið í bankaráðinu versnaði með innkomu Karls Wernerssonar. Aukinnar tortryggni gætti og flokkadrættir jukust. Bankinn reyndi að hrekja í burtu lífeyrissjóði og aðra hluthafa sem höfðu tryggt tilveru og uppgang bankans árum saman, jafnvel í áratugi ef talinn er með tími forvera Íslandsbanka. Karl átti mestan þátt í þessari stefnumótun sem að mínu mati var röng fyrir hagsmuni bankans og hluthafa hans, enda leiddi hún af sér óheillaþróun og loks sigldi bankinn í strand haustið 2008, fyrstur viðskiptabankanna til að verða gjaldþrota. Harðneskjuleg afstaða Karls Werners sonar til manna og málefna reyndist honum sjálfum heldur ekki vel eins og kunnugt er. Hann féll sjálfur af stalli, varð gjaldþrota og mátti þola þunga refsingu.

Björn Björnsson aðstoðarforstjóri varð brátt alvarlega sjúkur af krabbameini og það kom því einkum í hlut Jóns Þórissonar, hins aðstoðarforstjórans, að mynda mótvægi gegn útrásarhugmyndum Bjarna Ármannssonar sem að hans viti gengu of langt. Jón Þórisson og samstarfsmenn lögðu töluverða vinnu í að kortleggja tækifæri á bankamarkaði og niðurstaða þeirra var að efna til viðræðna við Landsbankann um samruna. Jón kynnti þessar hugmyndir opinberlega haustið 2004. Að hans mati voru mikil tækifæri á íslenskum bankamarkaði í samstarfi og við samruna fjármálafyrirtækja. Með því móti mætti auka þjónustu við viðskiptavini, bjóða hana á lægra verði og auka um leið verðmæti Íslandsbanka.

Bjarni Ármannsson tók þessum hugmyndum vægast sagt illa. Þar spiluðu inn í gamlar erjur milli hans og Sigurjóns Þ. Árnasonar. Sömusögu var að segja af stjórnendum Kaupþings – milli stjórnenda bankanna ríkti lítið sem ekkert traust sem vann á móti öllum sameiningarhugmyndum. Keppnin milli þeirra var hörð og gjarnan voru útrásarhugmyndir stjórnenda Íslandsbanka studdar með tilvísun til þess hvað Kaupþing eða Landsbankinn hefðu fyrir stafni. Íslandsbanki mætti ekki láta sitt eftir liggja. Hugmyndir um sameiningu bankanna og þar með frekari hagræðingu á bankamarkaði voru kæfðar í fæðingu. Harðasta andstaðan kom frá Karli Wernerssyni. Þótt vissir þættir í stjórnarháttum og stefnu Bjarna Ármannssonar séu hér gagnrýndir, vil ég samt halda því til haga að Bjarni var bankanum mikilvægur og gerði margt vel. Hann var dugmikill og drífandi, gríðarlega talnaglöggur og snöggur að átta sig á aðalatriðum máls. Þá gat hann hrifið fólk með heillandi framkomu. Gilti það jafnt um samstarfsfólk í bankanum, viðskiptavini og aðra sem bankinn var í samskiptum við. Hann var manna hressastur þegar svo bar undir. Bjarni gat ýtt af stað fjöldasöng á samkomum en hann er góður söngmaður og hefði vafalaust getað lagt fyrir sig tónlistina. Einkum hændist hann að Stuðmannalögunum og stóðst ekki mátið að taka lagið ef svo bar undir fyrir fullum sal starfsmanna sinna. Eitt sinn heyrði ég á tal tveggja starfsmanna bankans sem báru saman bækur eftir skemmtun í bankanum sem aðeins annar þeirra hafði sótt. Sá sem var fjarverandi spurði hinn hvort Bjarni hefði ekki tekið Stuðmannalög. Og svarið var þreytulegt: „Jú.“ – „Tvö?“ spurði hinn þá aftur. – „Nei, öll nema tvö!“

Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, skráir endurminningar Helga. Eftir Björn liggja sex bækur og fjöldi fræðigreina. Hann leggur nú stund á doktorsnám og kennir lögfræði við Verslunarskólann.