Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, gerði a.m.k. 29 gjaldmiðlaskiptasamninga árið 2007 og 7 í gegnum Glitni. Samkvæmt því sem fram kemur í ákæru embættis sérstaks saksóknara er honum gefið að sök að hafa vantalið gengishagnað upp á 40,6 milljónir króna og vantalið fjármagnstekjur upp á 6 milljónir króna. Af fjárhæðinni átti hann að greiða rúmar sex hundruð þúsund krónur.

Bjarni var ráðinn forstjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í september árið 1997 og hélt hann því starfi eftir samruna bankans við Íslandsbanka allt fram til maímánaðar 2007 þegar hann hætti störfum og Lárus Welding tók við af honum.

Í ákærunni kemur m.a. fram að hagnaður Bjarna af 29 gjaldmiðlasamningum sem bundnir voru við gengisvísitölu krónunnar námu 30 milljónum króna árið 2007. Árið eftir hagnaðist hann svo um rúmar 10 milljónir króna á sjö viðskiptum með norskar krónur og bresk pund. Einn samninganna var gerður í janúar árið 2008 en hinir frá í júlí og fram í september. Á sama tíma veiktist gengi krónunnar hratt.

Bjarni er krafinn um greiðslu rúmra 20 milljóna króna í vangoldna skatta. Mestu munar þar um sölu á hlutabréfum í félaginu Sjávarsýn árið 2006. Líklegt er að þar sé átt við samruna við félagið Glám sama ár. Bjarni átti allt hlutafé í báðum félögunum.

Vantalinn söluhagnaður í viðskiptunum er talinn nema tæpum 197 milljónum króna og vantaldar fjármagnstekjur numið 198,8 milljónum. Vantalinn fjármagnstekjuskattur nemur samkvæmt ákærunni tæpum 19,9 milljónum króna.

Ekki hefur náðist í Bjarna vegna málsins.