Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hefur fest kaup á 12% hlut í dótturfélagi Glitnis, Glitnir Property Holding (GPH), að verðmæti 970 milljónir. Glitnir mun áfram eiga 48,8% í GPH eftir viðskiptin. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki stjórnar GPH og annarra eigenda, en þeir eru alls 21 talsins og eiga hlut á móti Glitni í GPH, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Hagnaður Glitnis af sölunni nemur u.þ.b. 300 milljónum króna en þar að auki færist til tekna söluhagnaður að fjárhæð 1,5 milljarðar vegna tilfærslu eftirstandandi eignarhlutar út úr samstæðu bankans. Ef tekið er mið af nýjustu viðskiptum er óinnleyst gangvirðisbreyting eftirstandandi hlutar í kringum 1 milljarður króna.

Bjarni Ármannsson verður tilnefndur í stjórn Glitnir Property Holding. Stjórn félagsins skipa nú Lárus Welding, Alexander Guðmundsson, Morten Bjørnsen, Knut Marius Stokke, Bjørn Henningsen, Peter Leimdörfer, Petter Bjørnstad og Frank Reite, sem er stjórnarformaður.

„Ég er mjög ánægður með þessi viðskipti og hlakka til þess að vinna með eigendum, stjórnendum og starfsfólki félagsins að því að efla og þróa starfsemi þess enn frekar, þannig að það megi verða leiðandi í ráðgjöf og eignastýringu  á norrænum fasteignamarkaði. Meðal starfsfólks þess ríkir einstakur drifkraftur, hugmyndaauðgi og áræðni sem hefur gert GPH að leiðandi fyrirtæki á sínu sviði”, segir Bjarni Ármannsson í fréttatilkynningu.

„Við erum afar ánægð með að fá Bjarna Ármannsson til liðs við félagið, en Bjarni og Frank Reite, stjórnarformaður GPH, komu á fót ráðgjafarhluta Glitnis á fasteignamarkaðnum í Noregi sem síðar varð að Glitnir Property Holding á vormánuðum 2007. Glitnir mun áfram vera hluthafi í Glitnir Property Holding og styðja við starfsemi félagsins þar sem við sjáum góða möguleika til frekari virðisauka fyrir hlutahafa Glitnis.“, segir  Lárus Welding, forstjóri Glitnis.