Félög í eigu Bjarna Ármannssonar og Arnar Gunnarssonar hafa til jafns keypt helmingshlut í tölvufyrirtækinu SecurStore á Akranesi. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Örn mun í kjölfar kaupanna láta af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Saga Capital fjárfestingabanka og setjast í stól framkvæmdastjóra SecurStore. Örn var þar áður forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis.

Fram kemur að Alexander Eiríksson, núverandi framkvæmdastjóri SecurStore mun leiða markaðssókn fyrirtækisins og stýra sölu og markaðsmálum þess.

„Alexander hefur leitt uppbyggingu félagsins undanfarin ár ásamt bróður sínum Eiríki Þór Eiríkssyni, stjórnarformanni og fjármála og rekstrarstjóra fyrirtækisins. Þeir bræður munu áfram gegna lykilhlutverki við stjórn og framrás SecurStore,“ segir í tilkynningunni.

Fyrirtækið var stofnað árið 1991 af Alexander og Eiríki og hefur sérhæft sig í rekstri tölvu- og upplýsingakerfa fyrirtækja síðan þá. Árið 2004 var tekin stefnumótandi ákvörðun í fyrirtækinu um að sérhæfa sig í afritun gagna yfir netið.

„SecurStore er spennandi fjárfesting. Þar fer saman kraftur og skýr framsýn frumkvöðla ásamt skilningi á því að hvert skref í þroskaferli fyrirtækis kallar á sitt skipulag. Ég tel að stofnendur og starfsmenn fyrirtækisins hafi unnið frábært starf í að byggja grunn félagsins með þeim hætti að innviðirnir þoli hraðan vöxt og sókn á kröfuhörðum markaði,” segir Bjarni Ármannsson.

Kaupverð hlutar Bjarna og Arnar er trúnaðarmál.