Bandaríska fjárfestingafyrirtækið Paine & Partners tilkynnti í dag að Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis hefði gengið til liðs við í félagið og mun Bjarni, ásamt hinum norska Frank Reite sem einnig gekk til liðs við Paine & Partners og er fyrrverandi samstarfsmaður Bjarna í Glitni, stýra fjárfestingum sjóðsins (e. operating direktor) á Norðurlöndunum með áherslu á sjávarútveg, orkumál og fjármálastarfssemi eftir því sem segir í tilkynningunni.

Paine & Partners er einkaframtakssjóður (e. private equity fund) sem stofnaður var árið 1997.

„Það sem er mikilvægt varðandi Pain & Partners er öguð fjárfestingastefna þeirra í bland við það hæfileikaríka fólk er þar starfar,“ segir Bjarni Ármannsson í tilkynningu frá Paine & Partners.

„Ég hlakka til að deila reynslu minni og þekkingu af mörkuðum bæði í Norðurlöndum og Evrópu,“ segir Bjarni.

„Það er okkur mikil ánægja að fá Bjarna og Frank til liðs við Paine & Partners,“ sagði W. Dexter Paine sem er einn af frumkvöðlum fjárfestingasjóðsins. „Margir okkar hafa haft þá ánægju að vinna með þeim áður og berum mikla virðingu fyrir þeim. Þeir hafa náð góðum árangri í viðskiptalífinu, bæði á Norðurlöndunum sem og í Evrópu og Bandaríkjunum.“