Eignarhaldsfélagið Sjávarsýn ehf., sem er félag í eigu Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi forstjóra Glitnis, hefur að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag keypt Gasfélagið ehf. sem er helsti innflytjandi á fljótandi gasi og gashylkjum til landsins. Seljandi var félagið Krossá ehf. sem er í eigu Hjálmars Blöndals, fyrrverandi framkvæmdastjóra DV.

Hjálmar keypti Gasfélagið í apríl síðastliðnum af félaginu Ísmyndir ehf., sem er í eigu Jóns Þorsteins Jónssonar, stjórnarformanns Saxhóls ehf. og Arnar Arnarsonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Gasfélagsins. Ísmyndir keyptu félagið af olíufélögunum; Olíufélaginu ehf., Olíuverzlun Íslands hf. og Skeljungi hf. árið 2005, í kjölfar þess að þeim var af samkeppnisástæðum gert að selja. Nýr eigandi er því fjórði eigandi félagsins á tveimur árum. Gasfélagið ehf. var stofnað í núverandi mynd árið 1995.

Í viðtali við Hjálmar í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að hann ákvað að selja félagið þar sem gott tilboð barst. Að sögn Bjarna Ármanssonar eru kaupin hugsuð sem fjárfesting af hans hálfu en hann taldi að margvísleg athyglisverð tækifæri væru í rekstri Gasfélagsins sem meðal annars skapast af aukinni notkun álfyrirtækja og breyttum neysluvenjum. "Ég horfi til þess að það verði áfram markverð aukning í gasnotkun, bæði í iðnferlum og almenningsnotkun," sagði Bjarni.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.