Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að færa megi rök fyrir því að eignasafn stóru bankanna þriggja sé orðið fullstórt fyrir íslenska hagkerfið. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Bjarni segir að erfitt geti verið fyrir bankana að ná eðlilegri ávöxtun á það gríðarlega stóra eignasafn sem þeir eru með í dag. Það sé orðið mun stærra en það var fyrir tíu árum síðan.

„Bankarnir eru orðnir gríðarlega stórar einingar og þessar hagnaðartölur sem hafa verið að birtast að undanförnu eru mjög áberandi miklar. En þegar við skoðum eignasafn bankanna, hversu miklar eignir bankarnir eru að ávaxta, þá dregst upp aðeins önnur mynd,“ segir Bjarni.

Telur hann ástæðu til þess að selja eignir úr bönkunum og einfalda starfsemi þeirra.