Lækkun skatta þarf að stilla saman við aðrar aðgerðir í hagstjórn landsins, s.s. gerð kjarasamninga sem verða lausir í haust.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við VB Sjónvarp en sem kunnugt er kynnti hann, ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar flokkanna á Laugavatni í morgun.

Í þeirri yfirlýsingu er fjallað nokkuð almennt um skattamál. Bjarni segir að rétt sé að skoða skatta í samhengi við ýmis opinber gjöld, neysluskatta, vörugjöld og fleira. Bjarni segir ríkisstjórnina hafa það markmið að lækka fyrirnefndar álögur á heimilin í landinu með það að markmið að þau nái endum saman. Þá segir Bjarni mikilvægt að lækka tryggingagjald og einfalda skattkerfið í landinu, bæði fyrir heimili og atvinnulíf.  Bjarni segir að fyrstu aðgerðirnar verði kynntar á væntanlegu sumarþingi.

Aðspurður um það að setja tvo ráðherra í atvinnuvegaráðuneytið og skipta upp einstaka málaflokkum innan ráðuneytisins segir Bjarni það vera skynsamlegt og ábyrgt að brjóta verkefnin upp á milli tveggja ráðherra.