Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir umhugunsarefni hvernig á undanförnum mánuðum að grundvallarstoðir í okkar heilbrigðiskerfi séu teknar nánast í gíslingu til þess að ná fram kröfum í kjaraviðræðum.

Bjarni sagði að breyting hafi orðið á beit­ingu verk­falls­rétt­ar í land­inu sem hafi leitt til þess að til­tölu­lega fá­menn­ir hóp­ar geti nú farið þá leið að fara í verk­fall þar sem mest er fundið fyr­ir því. Þar vísaði Bjarni til niður­stöðu fé­lags­dóms fyr­ir stuttu síðan.

„Nú er það orðið þannig að sam­kvæmt þess­ari nýj­ustu niður­stöðu geta menn jafn­vel farið í verk­fall á ein­stök­um stofn­un­um. Það er mikið um­hugs­un­ar­efni hvernig við höf­um lent í því ít­rekað á und­an­förn­um mánuðum að grund­vall­ar­stoðir í okk­ar heil­brigðis­kerfi eru tekn­ar nán­ast í gísl­ingu til þess að ná fram kröf­um í kjaraviðræðum. Með þessu hef­ur hinu hefðbundna verk­falls­vopni verið beitt með nýj­um hætti. Þeim hætti að sú ákvörðun að fara í verk­fall bitn­ar ekki jafnt á báðum aðilum eins hef­ur verið fram til þessa,“ sagði Bjarni.

Segja að jöfnuður hafi aukist um of

Þetta sagði Bjarni á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Hann sagði að það væri svo spurning um hvað væri í raun og veru deilt í kjaraviðræðum. „Er kjarni deilunnar sá að það skorti á að gera betur við þá sem eru lægstlaunaðir, eða er það til vitnis um einhver önnur sjónarmið þegar stór félög á borð við BHM vilja meina að menntun sé ekki metin nægilega til launa og ganga nánast svo langt að segja að jöfnuður hafi aukist um of, svo mjög að það borgi sig ekki lengur, það skili sér ekki í launaumslagið, að sækja góða menntun t.d. með háskólagöngu?“

Katrín spurði Bjarna um aðkomu stjórnvalda að kjaradeilum og sagði ríkisstjórnina skila „fullkomnlega auðu“ í málinu, það væri staðfest með „vangaveltum“ fjármálaráðherra. Hún spurði eftir hverju væri verið að bíða, heilbrigðisstéttir væru í verkfalli í á þriðju viku og það eina sem heyrðist frá ríkisstjórninni væri að forsætisráðherra segir að aðilar þurfi að koma sér saman áður en ríkið komi að málum. Hún sagði menn vera að vísa frá sér ábyrgð og að koma sér undan því að svara fyrir þessa stöðu.

Bjarni sagði hins vegar að unnið væri eftir þeirri hugmyndafræði að það sé einhvers virði að viðhalda stöðugleikanum sem náðst hefur, að það skipti heimilin og atvinnulífið máli að halda lágri verðbólgu í landinu. Einnig sagði hann að þurfti að halda þannig líka á spilunum í þessari kjaradeilu að menn geri ekki eitthvað á einu sviði sem valdi röskun á öðru, að menn velti bara ósættinu á undan sér.

Ekki verið að bíða eftir neinu frá ríkinu

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, spurði einnig Bjarna um stöðu kjaramála. Hann sagði ástandið vera jafnvel verra en í læknaverkfallinu og einnig bætast nú við dýralæknar og fleiri hópar sem lama matvælaframleiðslu og jafnvel útflutning, og starfsmenn fjársýslunnar eru komnir í verkfall. Hann sagði að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á ástandinu almennt, og spurði hvernig Bjarni sæi þessi mál fyrir sér.

„Við fylgjumst vel með því hvernig viðræðulotunni vindur fram og gerum okkur grein fyrir því að það getur skipt máli hvað ríkið hefur fram að færa,“ sagði Bjarni. Hann sagði ekki verið að bíða eftir neinu frá ríkinu heldur væri verið að ræða málin á vettvangi ríkissáttasemjara. Ýmislegt kæmi til greina sem innlegg af hálfu stjórnvalda en það væri ekki hægt að gera neitt með launakröfur upp á 50 til 100 prósent.