Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart í ljósi þess að Icesave málið er enn óleyst í þinginu.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Viðskiptablaði en sem kunnugt er hefur stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) ákveðið að fresta fyrstu endurskoðun á efnahagsátætlun sjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Til stóð að málið yrði tekið fyrir á fundi stjórnar AGS n.k. mánudag en af því verður ekki.

Bjarni segir að endurreisn bankakerfisins og lausnin á Icesave málinu sé hluti af því sem horft hefur verið til við endurskoðun efnahagsáætlunarinnar.

„Við höfum náð vissum árangri hér á landi og endurreisn bankakerfisins er langt komin. Hins vegar er Icesave málið enn óleyst og í ljósi þess kemur niðurstaða AGS ekki á óvart,“ segir Bjarni.

Bjarni segir augljóst að Bretar og Hollendingar noti öll þau tækifæri sem þeir fá til að ná fram hagstæðri niðurstöðu í Icesave málinu. Meðal annars beiti þér sér innan AGS og eins Evrópusambandsins.

„Maður er alltaf að sjá hvað það eru mikil tengsl á milli þessa mála en menn mega hins vegar ekki ofmeta skaðann af því að vera ekki búnir að afgreiða Icesave málið,“ segir Bjarni.

„Þar liggja gífurlega miklir hagsmunir undir og því mikilvægt að vinna það mál vel og vandlega.“

Aðspurður um mögulegan skaða þess að AGS hafi frestað endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, sem þýðir að annar hluti láns AGS til Íslands verður ekki greiddur í bili, segir Bjarni hann ekki samanburðarhæfan við skaðann sem kann að hljótast með því að fá lélega niðurstöðu í Icesave málið.

„Það er óljóst hverjar skuldbindingar ríkisins verða vegna Icesave málsins en það þarf að fá það á hreint áður en lengra er haldið,“ segir Bjarni.

Mikið hefur verið rætt um að greiðslan frá AGS yrði að miklu leyti notuð til að efla gjaldeyrisvaraforðann – sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir að styrki gengi krónunnar.

Bjarni segir hins vegar að enn eigi eftir að leysa þau vandamál sem snúa að því erlenda fjármagni sem bundið hér á landi, bæði í formi skuldabréfa (jöklabréfa) og innistæðum á bönkum.

„Á meðan þeir sem eiga erlent fé hér á landi vilja losna með fjármagnið út úr landi dugar efling gjaldeyrisvaraforðans ekki ein og sér til að efla gengi krónunnar né til aflétta gjaldeyrishöftunum,“ segir Bjarni.