Samstarf við aðra flokka gengur ekki þannig fyrir sig að ríkisstjórnin velji úr þau mál sem hún er komin í mestar ógöngur með, óski eftir því að aðrir komi þeim til bjargar og kalli það samráð.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum í kvöld.

Tilefni þessa er að í dag kl. 15.00 barst  fundarboð vegna fundar í fyrramálið þar sem fimm ráðherrar ríkisstjórnarinnar hyggjast ræða skuldavanda heimilanna.

„Þrír af þessum fimm ráðherrum  héldu  blaðamannafund 17 mars sl. í Þjóðmenningarhúsinu og fullyrtu að ríkisstjórnin væri  búin að ná utan um skuldavanda heimilanna. Frekari aðgerða væri ekki þörf,“ segir Bjarni.

„Þess er nú freistað, eftir að mál heimilanna  eru komin í óefni vegna mistaka ríkisstjórnarinnar, að fá stjórnarandstöðuna til að hlaupa undir bagga.“

Bjarni segir að ríkisstjórnin hafi ranga stefnu í efnahagsmálum, s.s. um skattastefnu, fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu og verði haldið áfram á sömu braut muni það á endanum valda  enn frekari áföllum fyrir heimilin í landinu.

„Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í samstarfi við ríkisstjórn sem er á rangri braut,“ segir Bjarni.

„Tillögur um lausn á vanda heimilanna eru fyrir löngu fram komnar á þinginu. Á þeim vettvangi mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki láta sitt eftir liggja í hagsmunagæslu fyrir heimilin. Þjóðin þarf ekki samstarf flokka um einstök mál sem ríkisstjórnin hefur reynst ófær um að leysa. Þjóðin þarf nýja ríkisstjórn sem starfar á grundvelli endurreisnarstefnu sem gefur fólki og fyrirtækjum von um bjartari framtíð.“