„Við erum með skýra stefnu. Við viljum halda okkur fyrir utan Evrópusambandið. Við ætlum að stöðva viðræðurnar og ekki halda þeim áfram fyrr en þjóðin hefur fengið að segja sitt,“ segir Bjarni Benediktsson um aðildarviðræðurnar um Evrópusambandið í viðtali í Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í dag. Formaður Sjálfstæðisflokksins var þar meðal annars spurður út í aðildarviðræðurnar, nýja mynt, verðtrygginguna og fortíð sína í atvinnulífinu.

„Við munum ekki halda viðræðunum áfram við ESB eins og ekkert hafi í skorist. Það kemur ekki til greina. Við teljum engar forsendur til þess. Það er okkar skýlausa krafa,“ segir Bjarni aðspurður um mögulega samvinnu Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar eftir kosningar.

Umræður um aðra mynt ótímabærar

„Núna er staðan þessi. Við erum með krónuna og verðum með hana á næstu árum. Þess vegna tel ég að á landsfundinum um næstu helgi verði það ekki niðurstaða fundarmanna að við eigum að ákveða að taka upp nýja mynt. Ég sé það ekki fyrir mér að það verði undir nokkrum kringumstæðum niðurstaðan,“ segir Bjarni aðspurður um umræður á komandi landsfundi um upptöku nýrrar myntar. Nefnd um efnahagsmál innan flokksins hefur lagt þetta til eins og áður hefur komið fram.

„Þvert á móti, við eigum að gera okkur grein fyrir því að það verður krónan sem verður okkar mynt um fyrirsjáanlega framtíð. Ef menn vilja halda áfram umræðum um upptöku annarrar myntar í framtíðinni þá ætla ég ekki að setja lok á þann pott. En ég tel að þær umræður séu ótímabærar,“ segir Bjarni. Hann segir atvinnuleysi fyrirsjáanlegt ef til að mynda evra yrði tekin upp.