Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er á meðal þeirra sem eru á vitnalista í svokölluðu Vafningsmáli sérstaks saksóknara. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu en aðalmeðferð í málinu hefst í dag og gert er ráð fyrir að hún taki að minnsta kosti þrjá daga. Áður hefur komið fram að um 30 manns eru á vitnalista í málinu. Í Fréttablaðinu segir að ekki sé útséð með að þau verði öll kölluð fyrir dóminn en að því gefnu að Bjarni mæti yrði það líklega á þriðjudag eða fimmtudag sem hann myndi bera vitni.

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi yfirmaður fyrirtækjasviðs bankans eru ákærðir í málinu. Ákæran er fyrir umboðssvik sem þeir eiga að hafa framið í starfi með því að hafa lánað Milestone tíu milljarða í febrúar 2008 í gegnum félagið Vafning, gegn ófullnægjandi tryggingum, meðal annars til að tryggja að verð hlutabréfa Glitnis myndi ekki falla. Bjarni kom að málinu með þeim hætti að hann undirritaði veðsamning vegna lánsins frá Glitni til Vafnings í umboði félagsins.