Rangt er að ríkisstjórnin leggi ekki á nýja skatta í fjárlagafrumvarpinu. Fyrirhuguð skattlagning á lífeyrissjóði er skattlagning sem almenningur greiðir, að sögn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni gagnrýndi fjárlagafrumvarpið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og gagnrýndi þær tillögur sem ríkisstjórnin hafi lagt fram, svo sem framlengingu á auðlegðarskatti og fjársýsluskatti sem hann telur geta valdið því að fjármálafyrirtæki sjái sér ekki annað fært en að segja upp starfsfólki. Það muni koma harðast niður á konum hjá starfi hjá fyrirtækjunum.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vísaði því hins vegar á bug að nýri skattar hafi verið lagðir á landsmenn. Þvert á móti séu stóru tekjustofnarnir eru óhreyfðir.

Steingrímur benti á að skattlagning á lífeyrissjóði snúist um þátttöku þeirra í niðurgreiðslu vaxta heimilanna. Niðurgreiðslan kosti 18 til 19 milljarða króna.