Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, kveðst hafa fullan skilning á því að fólki þyki það einkennilegt að Bretar sinni loftrýmisgæslu yfir Íslandi í desember.

Gríðarlegir hagsmunir séu hins vegar í húfi og því liggi ekkert á að hlaupa til og taka ákvarðanir í óskyldum málum.

Þessi mál komu til tals á fundi utanríkismálanefndar í dag.

Morgunblaðið vakti athygli á því í morgun að Bretar myndu sinna loftrýmisgæslu yfir Íslandi í desember samkvæmt samkomulagi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.

Það vekti hins vegar upp spurningar ekki síst í ljósi þess að Bretar hafa nýverið beitt hryðjuverkalögum vegna Icesave-reikninga Landsbankans til að frysta íslenskar eignir þar í landi.

Óskiljanleg harka

„Síðast í dag voru Bretar að létta á þessum aðgerðum sínum," segir Bjarni enn fremur og bætir við: "En auðvitað er það óskiljanlegt að þeir skuli hafa beitt svona mikilli hörku."

Hann segir að íslensk stjórnvöld séu í stöðugum viðræðum við Breta til að leysa úr þeirri flækju sem upp er komin.

Inntur eftir því hvort þetta mál hafi verið rætt á fundi utanríkismálanefndar í dag svarar hann: "Þetta bar aðeins á góma."  Farið hafi verið yfir málið og  nefndarmenn hafi  viðrað skoðanir sínar.