Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur falið Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmyndunarumboðið.

Nefnir hann sanngirnissjónarmið fyrir því að afhenda honum umboðið vegna þess að flokkur hans er stærstur, og nefnir í því samhengi að Viðreisn, flokkur Benedikts Jóhannessonar sem einnig sótti eftir umboðinu sé sá fimmti stærsti á þingi.

Guðni segist ekki setja tímamörk en vill að unnið sé hratt að myndun nýrrar ríkisstjórnar og segist hann vilja vita strax eftir helgi hvernig staðan væri á þeim viðræðum, þó hann sé ekki með því að setja Bjarna nein tímamörk.

Hafnar hækkunum Kjararáðs

Aðspurður segir Guðni að hann hafi ekki beðið um hækkun launa sinna eins og Kjararáð hafi nýlega ákveðið og segist hann vænta þess að þingið taki ákvörðunina til baka miðað við umræðuna.

Hann muni þangað til láta það sem er umfram núverandi laun sín fara annað.