Bjarni Benediktsson alþingismaður hefur, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, íhugað af alvöru síðustu daga framboð til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, íhugar einnig sína stöðu.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir rétt í þessu að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri á komandi landsfundi flokksins sem haldinn verður í lok mars.

Því er ljóst að slagurinn um formannssætið er að hefjast í flokknum. Auk Bjarna og Þorgerðar hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri verið nefnd til sögunnar sem formannsefni.

Ekkert þeirra hefur þó staðfest opinberlega að þau séu að íhuga sína stöðu í þessum efnum.

Fleiri eiga vafalaust eftir að blanda sér í slaginn. Til dæmis er vitað að Guðlaugur Þór Guðlaugsson ráðherra hefur lengi haft hug á frekari metorðum innan flokksins.