Bjarni Benediktsson þingmaður hefur látið af stjórnarformennsku í félögunum N1 og BNT. Hann kveðst hafa dregið sig út úr stjórnum þessara félaga til að geta helgað stjórnmálunum krafta sína.

„Ég hef fundið fyrir því nú á þessum haustmánuðum að full þörf er á því," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann lét af stjórnarformennsku í N1 fyrir um það bil tíu dögum og í BNT á mánudag.

Einar Sveinsson hefur tekið við stjórnarformennsku í báðum félögunum í stað Bjarna, en hann var fyrir í stjórnum þeirra. Benedikt Jóhannesson kemur hins vegar nýr inn í stjórnirnar.

Stjórnmálamenn standa frammi fyrir miklu verkefni

Bjarni segist ekki eiga neinna hagsmuna að gæta í neinum hlutafélögum og því hafi þetta verið einföld ákvörðun. Atburðir síðustu vikna í þjóðfélaginu leggi hins vegar enn meiri ábyrgð á herðar stjórnmálamanna. Aldrei áður hafi þeir staðið frammi fyrir öðru eins verkefni og nú.

„Ég neita því heldur ekki að mér finnst á vissan hátt óheppilegt að vera mjög virkur þátttakandi í viðskiptalífinu eftir að bankarnir komust í hendur ríkisins. Það getur möguleika leitt til einhverrar tortryggni sem gæti bitnað á hagsmunum félaganna. Mér finnst það ekki góð staða," segir hann.

Þá hafi alltaf legið ljóst fyrir að hann myndi velja þessa leið ef hann fyndi að árekstrar yrðu á milli starfa hans í viðskiptalífinu annars vegar og í stjórnmálum hins vegar.

Kveðst ekki íhuga framboð

Spurður hvort hann sé að undirbúa jarðveginn vegna ráðherradóms svarar hann því til að ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum. Spurður hvort hann hyggi á framboð á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins svarar hann: „Ég hef ekki verið að velta slíku fyrir mér."

Bjarni hefur verið stjórnarformaður N1 og BNT frá því að Bílanaust og tengdir aðilar keyptu Olíufélagið árið 2006. BNT er móðurfélag N1.