Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins átti síðdegis á þriðjudaginn einkafund með David Cameron forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga breska Íhaldsflokksins.

Fundur Bjarna og Cameron fór fram í Birmingham en þar stendur yfir flokksþing breska Íhaldsflokksins að því er fram kemur í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Í tilkynningunni segir að Cameron og Bjarni hafi rætt sameiginlega hagsmuni Íslands og Bretlands. Þá fóru þeir yfir stöðuna í breskum og íslenskum stjórnmálum og Bjarni skýrði frá sjónarmiðum Íslendinga í Icesave-málinu. Flokksleiðtogarnir ræddu auk þess Evrópumálin og Evrópusamrunann.

Þá ræddu þeir Cameron og Bjarni breska Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Þar skiptust þeir á skoðunum um sýn og stefnu flokkanna.

Fyrr um daginn átti Bjarni fund með William Hague, utanríkisráðherra Bretlands þar sem þeir ræddu stöðuna í stjórnmálum í löndunum tveimur, Evrópumálin og Icesave-deiluna.