Til snarpra orðskipta kom á milli þeirra Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Steingríms J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem tekist var á um verðbólgutölurnar sem Hagstofan birti í morgun.

Bjarni sagði hækkun á vísitölu neysluverðs skýrast öðru fremur af hækkun hins opinbera. Hann benti á að ríkið eigi hlut í verðhækkun á eldsneyti og hlutur ríkisins því verulegur í útgjaldalið heimilanna. Því til viðbótar hverfi launahækkanir í verðbólgubálinu og forsendur kjarasamninga því brostnar. Bjarni sagði verðbólguþróunina í ofanálag líklega til að leiða til stýrivaxtahækkunar Seðlabankans. Það muni svo leiða til minni hagvaxtar en stefnt var að.

Greiningardeild Arion banka tók í svipaðan streng í umfjöllun sinni um verðbólgutölurnar í morgun og sagði að af öllum sólarmerkjum að dæma verði á öðrum ársfjórðungi umtalsvert hærri en Seðlabankinn spáði í Peningamálum í febrúar og bendi ýmislegt til þess að frekari stýrivaxtahækkanir séu í burðarliðnum á næstu mánuðum.

Steingrím viðurkenndi að verðbólga hafi reynst hærri en vænst hafi verið og litlar líkur á að hún nái markmiðum um næstu áramót. Á móti verðhækkunum sagði hann gengisstyrkingu geta hjálpað við að draga úr verðbólgu að því gefnu að ekki verði frekari hækkun á olíu og hrávöru.

Á hinn bóginn vísaði hann því á bug að aðgerðir hins opinbera hafi þrýst verðbólgu upp. Reyndar hafi raunin verið sú að opinberar hækkanir hafi staðið undir 1/3 af verðbólguhækkun um áramótin. Því sé ekki að skipta nú. Hækkun á gjaldskrá sveitarfélaga vegi þyngra.

Steingrímur vísaði því sömuleiðis á bug að aðgerðir stjórnvalda hafi dregið úr hagvexti. Þvert á móti sé útlit fyrir að hagvöxtur verði hér sá mesti í Evrópu á árinu auk þess sem atvinnuleysi sé fjórum prósentustigum lægra hér en á meginlandinu.