„Ég tel að við þurfum að fara mjög varlega í því að fara í kaupauka sem geta leitt til áhættusækni. Það er skynsamlegt að setja takmarkanir á slíka bónusa En ég tel of langt gengið að banna kaupauka,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær sagði að stjórnarfrumvarp sem Bjarni hefur lagt fram opni á fjórföldun á kaupaukum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Ef frumvarpið verður að lögum þá má veita starfsmönnum kaupauka sem nemur allt að 100% af árslaunum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Bjarni sagði í viðtali í Ríkisútvarpinu (RÚV) í morgun að sér finnist ekki ástæða til að banna alfarið kaupauka enda geti það leitt til launaskriðs í fjármálageiranum. Með frumvarpinu sé m.a. reynt að stemma stigu við því.

Bjarna fannst misskilnings hafa gætt í umræðunni um kaupaukana í gær enda fólk talið að með frumvarpinu sé verið að innleiða kaupaauka. Það sé ekki raunin. „Þvert á móti er verið að setja reglur um kaupauka, þ.e. hvernig þeir eigi að vera,“ sagði Bjarni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ef kaupauki á að vera hærri en 25% af árslaunum þá þurfi heimild hluthafafundar til að hækka hlutfallið upp í 100%. Til að fá slíka heimild þarf samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða hluthafa ef atkvæði greiða þeir sem ráða að minnsta kosti yfir helmingi hlutafjár.