Ýmis fyrirtæki sem voru hér áður, sum hver ofan í skúffum en skiluðum miklu til þjóðarbúsins, eru farin. Þá hafa stór fyrirtæki, líkt og Össur, ákveðið að fara. Dæmin eru þó ekki mörg og því er réttara að tala um að tækifærin eru að flýja.

Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem haldinn var í dag. Yfirskrift fundarins var „Íslensk fyrirtæki flýja land – Hver er rótin?“

Bjarni sagði að ef óvissan ríki áfram og ástandi breytist ekki þá muni fleiri fyrirtæki fara frá landinu. Hann sagði að rót yfirskriftar fundarins sé sú að pólitísk og efnahagsleg óvissa er of mikil á Íslandi. Nærtækt sé að vísa til gjaldeyrishafta og að hagspár benda til mikillar óvissu næstu mánuði. Til að mynda sé ný hagspá Hagstofu Íslands bundin miklum óvissuþáttum næstu mánuði.

Bjarni gagnrýndi orð stjórnvalda um að þjóðnýting komi til greina ef ekki er hægt að koma í veg fyrir erlent eignarhald á annan hátt. Hann gagnrýndi einnig skattastefnu núverandi stjórnvalda, sem beinlínis hafi verið sú að hækka skatta. Það sé ekki vænlegt til þess að auka hagvöxt og draga úr atvinnuleysi.

Hann sagði tækifærin til staðar og mannauðurinn hafi sýnt það, t.a.m. í tæknigeiranum. En of hægt hafi gengið að koma hlutunum aftur af stað. Bjarni sagði Beinu brautina, sem á að bæta skuldastöðu fyrirtækja, hafa gengið alltof hægt.