„Það er í sjálfu sér ekkert lagalegt eða tæknilegt í málinu sem segir að uppgjör á búunum þurfi að taka mörg ár,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Hann ræddi í viðtali í Ríkisútvarpinu í morgun um gjaldeyrishöft, fylgi við Sjálfstæðisflokkinn og kaupauka í fjármálageiranum.

Bjarni sagðist m.a. vonast til að hægt verði að afnema höft á smærri viðskipti milli landa innan skamms. Afnema þurfi gjaldeyrishöftin í nokkrum skrefum. Það haldist í hendur við það hvernig gangi að gera bú föllnu bankanna upp. Þar þurfi að stilla saman væntingar. Hann taldi þó ekki þurfa tvö ár til að ljúka undanþágubeiðni vegna uppgjöra á búunum. En horfa verði á stóra samhengið. Hann sagði að setja þurfi fram áætlun um það hvernig eigi að fara með aflandskrónur, krónur í eigu erlendra aðila sem ekki eru inni í þrotabúum. Í þriðja lagi þurfi að klára endurfjármögnun á nokkrum stórum erlendum skuldbindingum sem íslensk fyrirtæki skulda í erlendum gjaldmiðli.

Bjarni lagði jafnframt áherslu á að slitastjórnir föllnu bankanna væru ekki þau einu sem væru undir höftum.

„Höftin eru ekki bara á slitabúuunum. Við erum öll undir þessum höftum,“ sagði hann.